19 vikna sundprinsessur.

Þær eru svo yndislegar þessar stelpur, orðnar 19 vikna og alltaf að læra eitthvað nýtt. Það nýjasta hjá Freydísi Ólöfu er að puðra, þá setur hún þennan fína stút á munninn og reynir að blása af fullum krafti í gegnum varirnar með tilheyrandi hljóðum og slefi. Það er alveg æðislegt. Hún veltir sér yfir á magan alveg á fullu og er yfirleitt komin hálfa leið undir sófa. Í gær fórum við Freydís til Helgu sjúkraþjálfara, Þórunn Elísa var heima hjá pabba sínum sem var lasinn. Helgu leyst vel á Freydísi að vanda og heldur að þetta lagist bara allt að sjálfu sér þegar hún fer að sitja sjálf og styrkjast í baki. Þórunn Elísa tekur lífinu með ró þessa dagana, hún er ekkert að stressa sig á því að vera að velta sér né puðra, hún liggur bara afslöppuð og nýtur lífsins. Hún ætlar hinsvegar að vera tónelsk lítil skvísa en henni þykir mjög gaman að liggja á gólfinu og söngla eða spjalla og getur eytt miklum tíma í þetta áhugamál sitt. Þær byrjuðu í ungbarnasundi í dag og stóðu sig alveg frábærlega vel. Við mættum klukkan 17:00 á smá kynningarfund en biðum svo til klukkan 18:30 eftir að tíminn okkar byrjaði. Systurnar tóku sig rosalega vel út í nýju sundbolunum sem við keyptum á þær, sannkallaðar sundprinsessur. Þeim þótti þetta ekki leiðinlegt og stóðu sig einna best af nýliðunum (svona svo maður monti sig smá). Þær grétu lítið sem ekkert nema smá undir lokinn en þá voru þær líka orðnar svo þreyttar, svo þreyttar að Gunnar náði varla að klæða þær áður en þær voru sofnaðar. Næsti sundtími er á föstudaginn og ætlum við að standa okkur jafn vel þá. Amma og afi á Selfossi koma heim frá Kanarí á morgun og erum við rosalega spenntar að hitta þau aftur eftir 2 vikna fjarveru. Þau verða örugglega hissa að sjá hvað þær eru orðnar stórar. Inga og Gunnar Hólm komu í heimsókn á föstudaginn, það var æðislega gaman að hitta Gunnar loksins en hann bý í Danmörk, það var auðvitað æðislega gaman að hitta Ingu líka. Gunnar er 6 dögum yngri en systurnar og eiga þau eflaust eftir að leika sér mikið í náinni framtíð.

Linda Mjöll og Örvar pössuðu fyrir okkur á laugardagskvöldið frá 8 til 1 á meðan við fórum í 30 ára afmæli til Gyðu. Systurnar voru nú ekki að kippa sér upp við það og voru stilltar og prúðar, hlíddu öllu sem Linda sagði og fór í rúmmið án þess að kvarta.

Núna þurfa litlar þreyttar sundprinsessur að fara að sofa en við hendum inn nokkrum nýjum myndum fljótlega.

Nýjustu tölur voru að detta í hús.

4 mánaða vigtun:

Þórunn Elísa 6210 gr. og 63 cm

Freydís Ólöf 6040 gr og 62 cm

Það eru smá veikindi á gangi á heimilinu ég búin að vera lasinn, allir kvefaðir, stelpurnar báðar með hósta og nú Þórunn komin með hita. Við báðum lækninn um að hlusta hana og kíkja í eyrun á henni og það kom allt vel út sem betur fer.

Við stelpurnar erum því heima ef eitthver vill kíkja 😉

4 mánaða prinsessur.

img_1339.JPG4 mánuðir er ekki langur tími svo það er ótrúlegt hve mikið getur gerst á þessum tíma. Eins og að lengjast um 12 cm á 3 mánuðum og að tvöfalda fæðingarþyngdina sína ( ekki það að ég myndi vilja tvöfalda þyngd mína á 3 mánuðum). Hlutir sem stelpurnar hafa lært frá því þær fæddust eins og að halda höfði, hjala, hlægja, brosa, skríkja, grípa í allt sem fyrir er helst hárið á mömmunni og bringuhárin á pabbanum hihi, velta sér af maganum á bakið og Freydís er farin að velta sér yfir á magan, þetta eru alveg átrúleg afrek. Það er svo gaman að horfa á þær leika sér liggjandi á leikteppunum sínum horfandi á dótið einbeittar á svipa ákveðnar að ná gripi á því þó það taki þær nokkrar tilraunir. Að sjá þær sofa er eins og að horfa á engla, svo slakar og friðsælar að ég legg stundum lófan á magan á þeim til að finna andardráttinn og litla hjartað þeirra slá. Þær eru orðnar svo duglegar að sofa á næturnar, sofa frá 23:30- 9 allar nætur (klukkutími til eða frá) en ekki vakandi frá 12-2 einsog þær gerðu hérna áður fyrr. Besta stund dagsins er á morgnanna þegar þær eru komnar uppí til mín til að fá morgunsopann sinn, svo brosmildar að það bræðir mann, ég get ekki kvartað undan þreytu þegar ég sé þær þó augnlokinn séu þung þá eru þær svo fallegar að ég nota alla mína krafta að halda þeim opnum. Þær hafa vaxið í svo miklar persónur, Þórunn Elísa þessi brosmilda litla fallega sál sem liggur, skríkir og spriklar svo mikið að það er næstum ógerlegt að setja á hana bleiu, litli kúrarinn sem bora nefinu sínu á kaf í bangsan sinn eða dregur hann yfir andlitið og Freydís Ólöf sem setur alltaf upp svo sætan hissa svip og brosir með öllu fallega andlitinu sínu, sefur alltaf ská í rúmminu og hreyfir sig svo mikið á gólfinu að hún er yfirleitt komin hálf út af teppinu eða yfir á magan.
Þetta hljómar kannski allt mjög væmið en setning sem að Gunnar sagði við mig einusinni lýsir þessum tilfinningum best ,,við höfum einungis átt þær í 4 mánuði en við getum ekki hugsað okkur lífið án þeirra”.

Úr allri þessari væmni yfir í svolítið sniðugt og hlut sem að gerist ekki á hverjum degi en ég fór með stelpurnar í klippingu í dag. Þær sátu stilltar og prúðar í fanginu á mér,og fannst þetta bara fínt, hárgreiðslukonan setti á þær litla sæta svuntu, bleytti greiðuna og greiddi þeim, klippti hárið og svo þegar það var búið var hárið þurrkað með hárblásara. Þeim var alveg sama, fannst þetta bara rosalega spennandi. Ef þær verða alltaf svona góðar í klippingu þá er það æðislegt, leiðinlegt að þurfa slást við börnin sín með það er verið að klippa þau. Við settum inn nokkrar nýjar myndir, þar á meðal af þeim ný klipptum. Þær eru æðislegar, kíkið.

17 vikna.

Það styttist í 4 mánaða afmælið. Það hefur nú frekar lítið verið á döfinni hjá okkur síðustu dagana. Á þriðjudaginn í síðustu viku fórum við að fylgjast með ungbarnasundi á Reykjalundi en stelpurnar byrja á námskeiði þar 4 mars, leyst okkur bara rosalega vel á og erum við orðin annsi spennt að byrja.  Á fimmtudaginn síðasta fór ég með Freydísi til Helgu sjúkraþjálfara, henni leyst bara vel á Freydísi en vill að við gerum æfingar til að liðka hálsvöðvana og svo eigum við að koma aftur eftir 3 vikur. Gunnar fór í sumarbústað með vinum sínum um helgina svokallaða NÖRDABÚSTAÐAFERÐ, þá fara þeir nokkrir strákar saman og eyða helginni spilandi tölvuleiki(nörd), drekkandi bjór og étandi góðan mat. Við mæðgur fórum því bara á Selfoss til ömmu og afa í Suðurenginu og vorum þar yfir helgina. Á föstudeginum þegar amma var búin að vinna fórum við í heimsókn til Sjönu (gömul kona sem átti heima við hliðina á mér í sveitinni þegar ég var barn) og var hún að sjá stelpurnar í fyrsta sinn. Henni fannst þær mikið mannalegar með allt þetta hár. Um kvöldið á föstudeginum fórum við til Rúnu og co í sveitina í smá heimsókn en eftir það var farið í Suðurengið að sofa. Á laugardagsmorguninn skriðum við allar uppí til ömmu þegar afi var farinn frammúr og kúrðum, þegar amma var farin á fætur kom Linda uppí í staðinn og sváfum við framm að hádegi. Það er svo gott að kúra hjá þessum stelpum að það er nánast slegist um það. Eftir hádegi kom Urður með Tönju Margréti og Dominic Þór í heimsókn,  þau stoppuðu í dágóðan tíma og spjölluðu við okkur. Þegar þau voru farin þá kíktum við í heimsókn til Imbu, Jóa og strákana þeirra. Á sunnudeginum var haldið upp á afmælið hans Dags Arnar en hann varð 3 ára 13 febrúar, það var svaka veisla heima hjá honum, fullt af kökum og öðru gómsæti. Það var rosalega gott að koma heim til sín aftur eftir allt þetta flakk og vorum við mæðgur ( sérstaklega mamman) rænulausar til 12 að hádegi á mánudeginum, héldum okkur bara innandyra allan daginn og höfðum það kósí.

Jæja nóg í bili, hentum inn nokkrum myndum í Tvillingarnir 2008 albúmið. Endilega kíkið og kvittið í gestabókina 🙂