22 vikna og 3 daga.

Freydís Ólöf og Þórunn Elísa voru í 5 mánaða skoðun í morgun og viti þið hvað, þær eru búnar að þyngjast svo vel að ég ætlaði ekki að trúa því. Það verður því enginn grautur handa þessum dömum fyrr en þær verða 6 mánaða.

En skoðunin kom svona út :

Freydís Ólöf mælist 65,5 cm á lengd, 6970 grömm á þyngd og höfuðmál 42,5 cm. Hún hefur því lengst um 3,5 cm og þyngst um 930 grömm frá því í síðustu skoðun.

Þórunn Elísa mældist 65,5 cm á lengd, 7100 grömm á þyngd og höfuðmál 41,1cm. Er hún þá búin að lengjast um 2,5 cm og þyngjast um 890 grömm frá því síðast.

Við vorum mjög ánægð að heyra þessa tölur því þær æla svo mikið en virðast þyngjast fyrir því. Þær voru sprautaðar við því saman og síðast og stóðu sig eins og hetjur, næstum því engin grátur bara smá snökt í Freydísi. Lækninum fannst smelli svo mjöðmunum á Þórunni svo hann fékk tíma fyrir okkur í ómskoðun hjá Domus Medica. Þar kom allt vel út og útskýrði læknirinn að þetta væri bara svona smellir eins og heyrist oft í hnánum á manni og ekkert til að hafa áhyggjur af en betra er að vera öryggur á því. Svo nú vitum við það að mjaðmirnar á Þórunni Elísu eru í góðu lagi. Páskarnir voru mjög notalegir hjá okkur, Gunnar var í fríi alla vikuna fyrir páska og var Matthildur Erla hjá okkur. Á laugadeginum fylltum við stumpastætóinn (elska þetta nafn, finnst það algjört brill. Takk Jóhanna) af börnum og farangri og héltum til Þorlákshafnar city og gistum þar yfir nóttina. Á páskadeginum fórum við á Selfoss og vorum þar í kvöldmat. Annars höfðum við það bara rólegt heima, kíktum í heimsóknir eða fengum heimsóknir. Við skulum ekkert telja upp hvað var etið mikið af páskaeggjum en Matthildur Erla fékk 2 egg og ég myndi vorkenna hænunni sem þyrfti að verpa stærðinni á eggjunum sem ég og Gunnar borðuðum. Hentum inn nýjum myndum fyrir stuttu og endilega kvittið í gestabókina, ég hef svo gaman af því.

5 mánaða.

Já vá hvað þær eru orðnar stórar og býð ég spennt að sjá hvaða tölur koma út úr skoðuninni á miðvikudaginn. Það verður gaman að heyra hvað lækninum finnst um þær, hvort þær séu ekki bara að þyngjast vel og hvort við þurfum nokkuð að fara gefa þeim graut strax. Stelpurnar sofa vel á næturnar að vanda og eru stilltar. 5 mánaða afmælisdeginum var eytt í kökukaffi hjá Bjarney og Inga. Netið er leiðinlegt við mig svo ég skrifa meira seinna. Annars eru stelpurnar bara æðislegar eins og vanalega og við Gunnar getum ekki fengið nóg af því að knúsa þær og kissa.

21 vikna skvísur.

Já tíminn líður sko hratt og stelpurnar stækka og stækka. Þær eru að standa sig frábærlega vel í sundinu og eru farnar að stunda köfun. Í þriðja sundtímanum setti Óli sundkennari þær einu sinni í kaf og gekk það rosalega vel, enginn grátur en smá skeifa hjá Freydísi sem fór fljótt af. Í fjórða tímanum fengum við svo að setja þær í kaf tvisvar, það gekk mjög vel og er ekkert mál.  Mamman er farin að mæta í Hreyfingu á morgnana svo að á meðan hún hristir á sér skrokkinn eru Freydís Ólöf og Þórunn Elísa á barnagæslunni. Það hefur gengið mjög vel, fórum 4 sinnum í vikunni og aldrei þurft að ná í mig vegna stelpnanna. Það er alltaf að komast betri og betri rútína á lífið hér á bæ, nú eru dömurnar sofnaðar fyrir klukkan 23 á kvöldin og vaknar Freydís yfirleitt klukkan 7 til að drekka og sofnar strax aftur en Þórunn svona klukkutíma seinna og dormum við þá til svona 9 en þá förum við á fætur, klæðum okkur, fáum okkur morgunmat og mætum svo í ræktina klukkan 11 eða förum út í göngutúr með vagninn (stelpurnar í vagninum en ekki mamman). Það er algjör draumur hvað þær eru duglegar að sofa á næturnar, þær vakna nærri því aldrei en ef það gerist þá er bara að stinga upp í þær snuddunni og þær sofna aftur. Maður á víst ekki að vera að gorta sig of mikið því maður væri vís til að fá það í hausinn svo við skulu bara segja 7,9,13 og bankað á við. Matthildur kom til okkar á föstudaginn og ætlar að vera hjá okkur yfir páskana. Gunnar verður í fríi alla næstu viku svo það er aldrei að vita hvað við gerum af okkur.  Kannski við verðum á rúntinum á nýja fjölskyldubílnum okkar en við vorum að kaupa okkur, Toyota Previa 2000 árgerð 7 manna, það þýðir ekkert annað þegar fjölskyldan er orðin svona stór.