Við fórum frekar seint í 6 mánaða skoðunina en hún var loksins í morgun. Vorum mætt út á heilsugæslu klukkan 9 og það er byrjað á því að vigta Freydísi Ólöfu, hún reynist vera orðin 8130 gr. og 68,5 cm á lengd, ekkert smá stór stelpa. Næst á vigtina var Þórunn Elísa en hún slær systur sinni við að vanda og er orðin 8310 gr en jafn löng eða 68,5cm. Elín hjúkka var mætt á staðinn og hún er svo skotin í þessum stelpum, þegar hún frétti að þær væru mættar kom hún rakleitt fram til að heilsa upp á okkur. Læknirinn skoðaði þær, bara þetta vanalega, hlusta þær, skoða í eyrun, spyrja um heilsufarið og hreyfiþroskann. Hann var alveg sáttur við við þær á allan hátt enda sýndu þær vel hreyfiþroskann á skoðunarborðinu, þær voru hreint og beint út um allt. En svo kom að leiðinlega kaflanum, það var sprautan en nú er verið að bólusetja þær gegn meningókokkum (sem er víst heilahimnubólga á fínu læknamáli). Systurnar stóðu sig eins og hetjur en það kom smá grátur þegar efninu var sprautað inn því það svíður víst svolítið en það var fljótt búið þegar þær fengu knús og þá var bara brosað aftur.
Á mánudaginn fengum við sko skemmtilega heimsókn en Ásthildur og Dröfn komu loksins að skoða skvísurnar ( fyrir þá sem ekki vita þá er Dröfn æskuvinkona mín og Ásthildur mamma hennar en þær bjuggu í sömu sveit og ég og var mikill samgangur þarna á milli). Þær mæðgur gáfu Freydísi og Þórunni rosalega sæta kolkrabba sundboli sem eiga nú heldur betur eftir að koma sér vel þar sem að sundrottningarnar eru að sprengja gömlu bolina sína utan af sér.
Af sundinu er annars allt gott að frétta, það gengur bara alveg rosalega vel og stelpunum fer framm í hverjum tíma sem líður. T.d. erum við farin að sleppa þeim og í síðasta tíma voru þær látnar kafa á milli okkar, rosa gaman.
Ég man afskaplega illa frá hverju ég á að segja, jú ég get sagt ykkur frá því að þær eru farnar að fara í göngugrind og spæna gjörsamlega upp parketið í henni, flækingurinn er svo mikill. Hvort sem þær er í göngugrindinni eða bara á gólfinu þá ferðast þær annsi langt, þær velta sér um allt eða þá ýta sér afturábak á maganum. Þær eru aðeins farnar að myndast við það að sitja sjálfar en það vantar ennþá svolítið upp á jafnvægið.
Við erum farin að gefa þeim graut á morgnana og svo fá þær smá smakk af eitthverju seinnipartinn, þeim finnst matur rosalega góður og taka við honum með bestu list.
Við höfum reynt að vera dugleg að setja inn myndir þó svo að það hafi ekki verið mikið um skrif.
Eigið góðan dag.