24 vikur

25.vika = vika 24+0- 6 dagar

Þú
Líkami þinn og hormónar undirbúa sig nú fyrir fæðinguna. Hjá sumum konum lekur broddmjólk úr brjóstunum seinni hluta meðgöngunnar en aðrar geta ekki kreist einn dropa úr brjóstunum. Hvorutveggja er eðlilegt og hefur ekkert forspárgildi um hæfni þína til að gefa brjóst. Helst lekur úr brjóstunum þegar þú sérð aðra konu gefa brjóst, heyrir barn gráta eða ert kynferðislega örvuð.Mál frá lífbeini upp á legbotn (legbotnshæð) er um 28-30 sm þó svo að þú sért aðeins 24 vikur gengin. Ef þú gengir með eitt barn, hefði þessi legbotnshæð gefið til kynna að þú værir komin 30 vikur á leið. Legið þrýstir nú á öll kviðar- og brjóstholslíffæri. Þörmunum er ýtt út til hliðanna, maganum er ýtt upp og lungunum er þrýst saman. Þú verður fljótt södd þegar þú borðar vegna þess að maginn er undir þrýstingi en þú verður svöng fljótt aftur. Líkami þinn er undir álagi, þú andar ört og t.d. þegar þú talar í símann virkar þú móð. En þú ert einnig að öllum líkindum að rifna úr stolti yfir því að á þessari stundu skuli tvö börn vera að vaxa og dafna í þínum eigin líkama.

Tvíburarnir
Börnin eru nú um 22 sm frá höfði niður á rass, um 30 sm niður á hæl og vega um 700-750 grömm hvort. Beinin eru að verða harðari og þegar börnin hreyfa sig bungar maginn á þér út. Börnin eru „aktíf“ í lengri tíma og þér finnst þú finna spörk út um allt – alltaf.

———————————————– ooo ———————————————–

Þetta er mjög svipað hjá mér. Við fórum í mæðraskoðun á miðvikudaginn 19 júlí, þar tók á móti okkur indælis ljósmóðir. Kom allt mjög vel út, blóðþrýstingurinn er rosalega flottur og engin eggjahvíta í þvaginu og bara allt mjög gott. Hún mældi legbotnshæðina og hann var 28 cm sem er alveg eftir stuðli svo ég get ekkert kvartað. Hún gaf sér mjög góðan tíma til að hlusta á hjartsláttinn og voru tvíburarnir ekki sáttir við það, spörkuðu og spörkuðu i mónitórinn, sem var léttir á vissan hátt því þau voru búin að vera svo róleg í sumarbústaðnum að ég var farin að sakna þeirra. Það var einhver mismunur á hjartslættinum sem svo lagaðist og hún setti ekkert út á það. Hún benti mér á það á mjög nettan hátt að ég skildi passa mig á þyngdinni því ef ég myndi halda áfram að þyngjast svona þá yrði ég kannski aðeins of þung í lok meðgöngu. Svo sendi hún mig í blóðprufu til að athuga hvort ég hafi ekki nóg af járni og blóði. Matta fékk að fara með okkur og fannst henni þetta svakalega spennandi. Hún var samt eiginleg mest spæld yfir því að það myndi engin eftir henni þarna á spítalanum en hún lá þarna inni í eitthverja 2 daga fyrir nokkrum árum síðan. Það var bara sætt. �

23 vikur og við á leið í sumarbústað.

Það er föstudagur og við litla fjölskyldan í Krókavaðinu erum á leið í sumarbústað á Kirkjubæjarklaustri með familíunni minni(Brynju).

Þau á Ljósmóðir.is vilja meina að ég eigi að vera orðin ansi þung á mér núna en mér finnst ég svo létt á mér nema kannski á kvöldin því þá er ég eins og afvelta belja hérna í sófanum en það er aukaatriði. Hehe

A og B eru svo dugleg að láta vita af sér að maginn á mér gengur stundum í bylgjum , það er svo gaman að sjá það, þetta verður allt svo raunverulegt þegar maður er farinn að finna svona sterkar hreyfingar.

En svona á þetta að vera á þessum tímapunkti:

24. vika = vika 23+0- 6 dagar

Þú
Nú fer þyngdin að plaga þig og alvanalegt í Danmörku að mæla með því að tvíburamæður hætti að vinna frá þessum tíma, sérstaklega ef konan vinnur líkamlega erfiða vinnu. Legið er á stærð við fótbolta og bumban stendur flott út í loftið en er nú líka orðin nokkuð þung. Fóstrin þrýsta meira og meira á þvagblöðruna þína svo þér gæti fundist þú endalaust þurfa að pissa. Aukin þyngd getur líka valdið sinadráttum í fótum, líka á nóttunni. Gerðu teygjuæfingar og passaðu að hafa hátt undir fótunum eins oft og þú getur. Sumar konur fá grindargliðnun á þessu tímabili en aðrar ekki fyrr en seinna á meðgöngunni en flestar losna við hana.
Margar tvíburamæður kvíða því í byrjun meðgöngu að fara í veikindafrí snemma á meðgöngu, því þær eru hræddar um að leiðast og verða eirðarlausar. Núna þegar þú ert svona langt komin á meðgöngunni, er ekki ólíklegt að þú hlakkir til að vera heimavinnandi tilvonandi tvíburamóðir. Hlakkar til að öðlast tíma og orku til þess að njóta meðgöngunnar án þess að vera feimin við að nota allt í rasshæð sem hvíldarstall og hlakkar til að njóta auka lúrs með góðri samvisku eða geta leitað að tvíburaupplýsingum á netinu eða rætt við aðrar tvíburamæður. Eða bara sofa, borða og sjá og finna lífið aukast í bumbunni sem þú verður aldrei þreytt á að upplifa. Nú finna flestar konur fyrir hreyfingum hjá fóstrunum og spörkin fara að verða hluti af hversdeginum.
Tvíburarnir
Fóstrin eru nú um 21 sm frá höfði niður á rass, um 28 sm niður á hæl og vega 600-700 grömm hvort. Höfuð þeirra eru 5,5 sm í þvermál. Syngdu fyrir tvíburana þína eða segðu nöfnin þeirra, ef þeir hafa fengið þau. Þú getur byrjað að örva skilningarvit fóstranna og þau að bregðast við – svara rödd þinni. Þrátt fyrir að fóstrin líti þroskalega út, eru lungu þeirra ekki fullþroskuð og þau gætu enn tæplega lifað utan móðurkviðar.

22 vikur.

6 júlí voru komnar 22 vikur og þá á þetta að vera eitthvað í þessa áttina.

  

23. vika =vika 22+0- 6 dagar.

Þú
Þú hefur nú líklega þyngst um 8-11 kíló sem deilast á blóð, vökva og tvö börn. Ef þú stendur mikið færðu bjúg á fæturna vegna þess að legið situr sem tappi í miðjum líkamanum og heftir blóðflæðið til og frá fótunum. Æðahnútar og gyllinæð eru aðrir kvillar sem geta fylgt. Þú getur enn fengið stingi í nára og síður þegar böndin sem halda leginu teygjast en þetta lagast við hvíld. Láttu þetta minna þig á að miðdegislúr er ekki eingöngu fyrir gamalt fólk heldur líka tilvalinn fyrir tvíburamóður og tvíburana í maganum.
Á þessum tíma gætir þú líka farið að finna fyrir fyrstu verkjalausu samdráttunum þegar legið dregur sig saman og verður hart. Legið er að æfa sig fyrir fæðinguna og það er alveg eðlilegt. Fyrirvaraverkirnir/samdrættirnir eiga ekki vera sársaukafullir, of kröftugir eða reglulegir – ef svo er, skaltu hafa samband við fæðingardeildina eða ljósmóðurina þína.

Tvíburarnir
Fóstrin eru nú um 19-21 sm frá höfði niður á rass, um 27 sm niður á hæl og vega um hálft kíló hvort. Í sónar sést fylgjan/fylgjurnar vel og belgjaskilveggurinn sem aðskilur fóstrin

Sónarmyndir

Við hjónaleysin fórum í heimsókn til Kalla og Hjördísar og fengum þau til að skanna inn fyrir okkur allar sónarmyndirnar okkar.

Afraksturinn má sjá í albúminu okkar en hérna fyrir neðan er samt smá sýnishorn 😉
Fyrir þá sem ekki átta sig á þessari mynd þá eru þetta tvíburarnir, liggjandi hlið við hlið.

Kollarnir á krökkunum okkar