29 vikur.

30. vika = vika 29+0- 6 dagar

Þú
Þú stækkar enn og hefur nú þyngst um 11-14 kíló, kannski meira, kannski minna. Sumar tvíburamæður fæða tvö stór börn þrátt fyrir að hafa einungis þyngst um 7 kíló á meðgöngunni. Aðrar þyngjast um 25 kíló og fæða tvö lítil börn. Þyngdaraukning þín er ekki endilega í takt við þyngd barnanna, heldur er mesta þyngdaraukningin í vökva og fitu. Það er mjög mikilvægt að þú farir ekki í megrun á meðgöngu. Liðbönd og sinar verða teygjanlegri en áður til að undirbúa líkamann fyrir fæðinguna.

Tvíburarnir
Börnin eru nú um 27 sm frá höfði niður á rass, 36 sm niður á hæl og vega um 1300-1400 grömm hvort. Tvíburar vaxa eins og einburar fram að þessari viku en héðan í frá vaxa þau aðeins minna en einburar. Börnin geta nú æft sig í að fókusa. Augnabrúnir og augnhár eru nú fullþroskuð. Fósturhár sem hafa þakið tvíburana, byrja nú að detta af. Tvíburarnir sjúga oft á sér þumlana.

28 vikur

29. vika = vika 28+0- 6 dagar

Þú
Börnin þrýsta nú enn meira á þindina, lifur, maga, þvagblöðru og þarma. Legbotninn er nú fimm fingurbreiddir undir bringspölunum og kannski skelfir þyngdin þig og að enn séu 8 – 10 vikur eftir af meðgöngunni. Gættu að mataræðinu, það er aldrei of seint að breyta næringarvenjum. Ef þú ert í vafa með þyngdina, spurðu þá ljósmóðurina þína hvort þú þyngist eðlilega á miðað við tvíburamóður.

Tvíburarnir
Börnin eru nú um 26 sm frá höfði niður á rass, 35 sm niður á hæl og vega um 1100-1300 grömm hvort. Þau eru orðin kringlóttari í útliti og ljósmóðirin getur auðveldlega þreifað eftir höfðum þeirra, sem orðin eru um 7 sm í þvermál, þ.e. ef hún getur fundið þau. Náttúran er ótrúleg; í nýrnahettum barnanna framleiðst karlhormón sem breytist í fylgjunni í kvenhormónið estrógen. Það hormón setur af stað framleiðslu á hormóninu prólaktín sem er mjólkurmyndunarhormón. Þannig tryggja börnin sér óbeint næringu eftir fæðinguna.

Ef börnin fæddust núna, eiga þau góða möguleika á að lifa.

27 vikur

28. vika = vika 27+0- 6 dagar

Þú
Nú eru þrír mánuðir í áætlaðan fæðingardag og í næstu viku ertu komin á síðasta þriðjung meðgöngunnar. Hafir þú ekki gefið vinnuveitanda þínum upp áætlaðan fæðingardag, á hann rétt á því nú. Þú getur fengið skriflega staðfestingu á áætluðum fæðingardegi hjá ljósmóðurinni þinni.

Tvíburarnir
Börnin eru nú um 25 sm frá höfði niður á rass, 34 sm niður á hæl og vega um 1000-1100 grömm hvor. Höfuð þeirra eru um 6,8 sm í þvermál. Þau byrjar nú að dreyma og margir vilja meina að meðvitund þeirra vakni um þetta leyti.

Mæðraskoðun

Eða ætti maður kannski að segja foreldraskoðun hehe þar sem að Gunnar var skoðaður líka. Hún Sveina athugaði blóðþrýstinginn hjá honum sem er of hár og skipaði honum í alsherjar tékk. Hún vill fá að sjá niðurstöðurnar í næstu skoðun, takk fyrir takk. Annars kom allt vel út í skoðuninni í dag, hjartslátturinn heyrðist hátt og greinilega, blóðþrýstingurinn hjá mér fullkominn og ekkert út á neitt að setja. Sveina ljósmóðir benti okkur á það að miðað við stærðina á leginu sem var 34 cm þá er ég komin eins og 35 vikur á leið með eitt barn. Það er slatti enda varð hún eiginlega hálf skrítin á svipin þegar ég sagðist vera ennþá að vinna, held að hún vilji að ég hætti bara strax en ég verð út mánuðinn. Blóðprufan sem var tekin síðast kom vel út. Og við skötuhjú gengum út með bros á vör enda ekki annað hægt þegar maður er hjá svona æðislegri ljósmóður.