4 vikna prinsessur

Tíminn líður ekkert smá hratt en samt finnst mér svo langt síðan ég var að remba stelpunun út. Margt hefur skeð á þessum langa stutta tíma, stelpurnar þyngjast vel en í síðustu vigtun sem var á miðvikudaginn síðasta vóg A 3520 gr og B 3550 gr þannig að það munar orðið ekki neitt á þeim.  Alexander og Matthildur komu til okkar um helgina og voru þá að sjá systur sínar í fyrsta skipti. Þeim leyst bara vel á litlu systur og tvíburunum á stóru systkynin sín. Á laugardaginn var haldið afmæliskaffi fyrir Möttu en hún varð 8 ára 28 okt. Þar komu ömmur og afar, frænkur og frændur í vöfflur og annað góðgæti. Á sunnudeginum urðu tvillingasystur svo 4 vikna.

Gunnar fór aftur að vinna í dag og að því tilefni ákváðu systurnar að vaka og gráta til skiptis í alla nótt svo að mamma þeirra fengi nú örugglega engan svefn. Það bætti svo ekkert ástandið að ég mátti ekki gefa þeim brjóst í nótt, ég tók nebla inn steralyf í gær og þá er ekki ráðlagt að mjólkin sé drukkinn næsta hálfa sólahringinn. Fyrir þá sem ekki vita þá fékk ég stíflur í brjóstinn  (á þeim tíma sem stelpurnar voru að koma heim) með tilheyrandi hita og óþægindum, fór þá til læknis og fékk pensilín sem virkaði ágætlega fyrir utan aukaverkanirnar sem lýsa sér í brjálæðislegum kláða um allan líkama og útbrot. Ég fór því til læknis aftur þegar ég var byrjuð að klóra mig til blóðs og fékk ofnæmislyf sem var ekki að virka á mig svo ég fór aftur og hann vissi ekkert og sendi mig á bráðamóttökuna á landspítalanum við Hringbraut en þar var nú bara nánast hlegið af því að ég skildi vera send þangað og mér bara bent að athuga hjá húðlæknum. Ég hringdi á nokkra staði og komst að því að ef ég vildi komast að hjá húðlækni þá þyrfti ég að bíða til janúar. Við gerðum okkur því bara ferð á Selfoss í gær og ég fór á vaktina þar, læknirinn sem ég lenti á skaffaði mér einum skammti af steralyfjum og sterkari ofnæmislyfjum svo ég ætla bara rétt að vona að þetta virki svo ég geti hætt að klóra mér og farið að sinna börnum og heimili. Að vera klóra sér í 3 vikur er svolítið of mikið finnst mér. En jæja nóg komið af sjúkrasögum mínum. Við erum komin með dagsetningu á skírnina en hún fer fram 16 des í Gaulverbæjarkirkju og er verið að skoða sali núna, nánasta fjölskyldan er orðin svo stór að það þýðir ekkert annað en að leigja veislusal fyrir svona atburð. Það verður svo gaman þegar það verður búið að skíra dömurnar og maður þarf ekki að titla þær A og B í kringum aðra.

Mér heyrist þvottavélin vera búin svo ætli það sé ekki best að hengja upp öll barnafötin og taubleyjurnar.

Fyrsta baðferðin

Í gær, 08.11.2007, var merkisdagur.
Þá fóru stelpurnar okkar í fyrsta skipti í bað. Okkur fannst þetta græna á þeim orðið svolítið mikið þannig að við spurðum lækninn sem var að tékka á fætinum á A hvað þetta græna væri. “Þetta er mosi” sagði læknirinn og ráðlagði okkur að baða þær hið snarasta.

Kannski aðeins að ýkja hérna en þar sem við fórum með A til læknis í gær og hann sagði að sárið á fætinum á henni væri orðið það gott að það mætti baða þær þá tókum við hann á orðinu, hættum þessum kattarþvotti sem við höfum stuðst við hingað til og smelltum þeim í bað.
Báðum snúllunum okkar virtist líka baðið vel, sungu hástöfum og fóru í kollhnísa… í alvöru sko… ég myndi ekki ýkja þetta

Myndir af þessari frægðarför er að finna inni á albúminu okkar 🙂

Nafnaveisla

Vorum að koma úr nafnaveislu á efri hæðinni.
Það var verið að gefa litlu frænku nafn. Ekki það að hún sé eitthvað minni en við tvillingarnir en hún er þremur dögum yngri.

Skutlan fékk nafnið Ísafold og óskum við henni til hamingju með það.

Ætli við bíðum samt ekki eftir því að allar móðursystur okkar komi til landsins áður en við fáum að nota nöfnin okkar utan heimilisins 😉

Heima

Þá erum við búin að prufa þetta í nokkra daga og því miður föttuðum við ekki hvenær prufutíminn rann út, annars hefðum við sko skilað þeim…

Þetta byrjaði vel. Komum heim með dömurnar á mánudags eftirmiðdegi, gáfum þeim og lögðum þær aðeins. Að sjálfsögðu vöknuðu þær til að fá sér smá snarl nokkru seinna og það var gott og blessað. Svo kom nótt og mamma og pabbi ætluðu nú aldeilis að gefa þægu stelpunum sínum og fara svo að sofa í 3-4 tíma en nei… það var ekki séns.

Stelpurnar voru nefnilega búnar að plotta.
Þegar önnur þagnaði átti hin að byrja var plottið og því héldu þær alla nóttina. Það var ekki fyrr en undir morgun að mamma og pabbi gátu hvílt sig aðeins, mamma reyndar orðin lasin.

Kemur nefnilega í ljós að Brynja náði sér í “smá” stíflur í brjóstin eftir að hafa notað aðeins of lítinn stút á mjólkurvélina. Það leiddi síðan til hita og orkuleysis þannig að hún þurfti að hafa tvö- til þrefalt fyrir öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Hitinn rauk upp úr öllu valdi og komst í næstum 40 °C á tímabili. Reyndar hélt hún að hún væri laus við stíflurnar af því að roðinn og bólgurnar sem höfðu fylgdu voru svo gott sem farnar. Að lokum varð hún svo að láta sig hafa það og fara upp á Landsa í dag þar sem hún var látin vita af því að þetta væru stíflur og hún sett á pensillín.
Við bíðum spennt eftir því að vita hvort þetta fer í magann á stelpunum.

Nótt tvö byrjaði svipað og nótt eitt og við Brynja fengum náttúrulega nett í magann…
Stelpurnar góluðu til skiptis frá miðnætti til kl. 02:00 en svo skyndilega snarþögnuðu þær. Sem var gott af því að annars hefði ég örugglega fengið magasár. Var farinn að sjá það fyrir mér að við Brynja myndum hittast í morgunmat og kvöldmat. Þegar annað væri að byrja á vakt og hitt að hætta. En sem betur fer virðast þær hafa ákveðið að prófraun okkar væri lokið í bili og við fengum að sofa bara nokkuð vel þessa nótt.

Nótt þrjú og þær byrja upp úr miðnætti. Ég orðinn svaka vanur tek A með mér fram í stofu til að róa hana og B er bara sátt við það að fara að sofa þegar ólátabelgurinn, systir hennar, er farin fram. Brynja sofnar líka og við A að horfa á einhvern þátt um orrustuþotur sem er frír á Skjánum.
Ágætis þáttur svo sem en hann virðist nú ekki hafa náð að halda mér vakandi.
Alla veganna vaknar Brynja um kl. sex í morgun og tekur eftir því að ég er ekki uppi í rúmi. Hún fram og þar liggjum við enn, A og ég, og þátturinn um orrustuþoturnar löngu búinn. Ég veit ekki enn hvaða þotur eru bestar í heiminum núna… það bíður seinni tíma.
Fengum samt góðann svefn út úr þessu og þetta er allt í áttina.

Núna eru hnáturnar svo að æfa sig í svefni fyrir nóttina og gengur bara nokkuð vel.
Ef þetta gengur svona áfram þá getum við kannski bara farið að bjóða fólki í heimsókn til okkar á daginn 😉

Nóg um það þá í bili 🙂

Eitthvað af myndum hefur safnast til og erum við í þann mund að henda þeim inn.