Bumbumyndataka
Það er kannski svolítið seint að setja myndirnar inn núna en betra seint en aldrei. Við fórum í myndatöku hjá Gunnari Nielsen og hann tók þessar fínu myndir af okkur skötuhjúum. Maður sér það svona eftir á hvað ég var orðin feit í framan og og öll útblásin af bjúg. Endilega kíkið á myndirnar.
Myndir, myndir, myndir!
Vorum að enda við að henda inn alveg helling af myndum.
Ný mappa gerð fyrir skírnarmyndirnar og við eigum svo von á einhverjum frá Erlu ömmu. Bætum þeim við þegar þær berast í hús.
Tara Dís er meðal fyrirsæta sem pósuðu með tvillingunum einhvern tíman í nóvember en myndir af því er hægt að sjá í Fjölskyldan albúminu og að síðustu þá settum við inn nokkrar myndir í Tvillingarnir albúmið.
Annars er okkur bara farið að hlakka töluvert til jólanna. Fórum og versluðum nokkrar gjafir í Kringlunni í dag og hittum þar á þær Aðalheiði og Sunnu frænkur.
Fyrir þá sem ekki vita þá er Aðalheiður konan hans Ottós bróður hennar Erlu ömmu, og Sunna er svo önnur dóttir þeirra.
Ég held að þær hafi alveg samþykkt dömurnar sem fjölskyldumeðlimi.
Skírn
Í dag var stór dagur fyrir stelpurnar okkar því rétt rúmlega tvö voru þær skírðar.
Fyrir þá sem eru bara rétt að kíkja inn á síðuna til að komast að því hvað þær voru skírðar þá heita þær
TADDARRAAAAAAAA!
Freydís Ólöf (B) og Þórunn Elísa (A).
Fyrir ykkur sem eruð ekki farin þá voru þetta nöfn sem Brynja var komin með eiginlega bara upp úr fæðingu stelpnanna og þurfti ekkert svakalega mikið til að sannfæra mig um að þau myndu virka. Snérum þeim samt aðeins og mátuðum í einhvern tíma og fundum að okkur líkaði bara ágætlega.
Við erum svo búin að kalla þær nöfnunum sínum síðan og fannst alltaf jafn ömurlegt að þurfa að svissa yfir í A,B dæmið aftur.
Núna þurfum við sem sagt ekki lengur 😀
Stelpurnar greinilega fundu á sér að það væri stór dagur í dag því þær ákáðu að taka metvöku í gærkveldi. Við náðum þeim niður upp úr þrjú í nótt með því að lofa þeim háum fjárhæðum og því að við myndum kaupa svolítið stórt jólatré fyrir tiltölulega nýstofnaða heimilið okkar.
Stelpurnar voru svo vaknaðar upp úr 9 í morgun og vildu hefjast handa. Það þurfti að skreyta eitt stk. brauðtertu, baða mömmu og pabba, láta Alexander Þór og Matthildi Erlu klæða sig og svo þurfti að keyra niður í Gaulverjabæ.
Já ég sagði Gaulverjabæ af því að Brynja er þaðan.
Ég veit. Gaulverjabæ. Við erum búin að heyra alla brandarana og hlífum ykkur við þeim.
Í þessari kirkju var Brynja skírð og fermd og núna skírir hún börnin sín þar. Ágætt að halda hefðum áfram og fínt að gera það í 100 gömlum kirkjum 😉
Það má koma fram að allir mættu óvenju tímanlega til athafnarinnar enda snar vitlaust veður og fólk hefur lagt tímanlega af stað.
Reyndar þurftu sumir að leggja meira á sig en aðrir og nefni ég sem dæmi Gyðu systur og Sigfús mág sem lentu í því á leiðinni að rúðuþurrkurnar hættu að virka.
Frekar gott í 200 vindstigum og “hellt-úr-fötu” rigningu.
Skilst að Sigfús hafi á endanum sett á sig sundgleraugu sem hann fann fyrir rælni í bílnum, smellt höfðinu út um gluggann og keyrt með annari alla leiðina í kirkjuna og barist við það að drukna bara ekki, hreinlega.
Guðný frænka (Sr. Guðný Hallgrímsdóttir sko ), sérstaklegur tengiliður fjölskyldunnar við Guð, sá um að klastra nöfnunum á dömurnar og fórst henni það bara ágætlega úr hendi enda snillingur á ferð.
Dömurnar ákáðu að fara í kappsvefn rétt áður en þær voru paraðar við nöfnin sín sem endaði með sigri Þórunnar Elísu sem svaf í gegnum alla athöfnina og vel og lengi á eftir.
Freydís Ólöf vaknaði hins vegar í miðri athöfn og vakti aðeins en bara svona til að sjá hvað gengi á.
Hún sofnaði svo og svaf, held ég, í gegnum myndatökur og svoleiðis.
Eftirá var haldið í Félagslund þar sem lítil veisla var haldin fyrir þetta allra nánasta og héldu dömurnar áfram að sofa.
Ef það er gott að sofna í skírnakjólnum þá var því alveg náð hérna.
Yfir sig var étið af rjómakökum, brauðtertum og heitum réttum. Svo var farið og fengið sér meira… og aftur.
Eftir að hafa fengið sér svo enn aftur var nóg komið af hlaupum yngstu kynslóðarinnar, þau sett aftur í búrin sín, tekið til og farið heim.
Þegar heim var komið var fékk fólk sér enn annan skammt af kökum. Hægt að líta á þetta sem upphitun fyrir jólin eftir rúma viku.
Jæja… eins og alltaf þegar ég sest niður og ætla að blogga lítið eitt þá verður það svona langt… kann mér ekki hóf.
Kíkið inn á morgun eða hinn til að sjá myndir af herlegheitunum.
Bless í bili