30 vikur

31. vika = vika 30+0- 6 dagar

Þú
Þú ert nú orðin nokkuð sliguð. Allt gengur hægar fyrir sig og þú ert móð þrátt fyrir að lungnarúmmál þitt hafi aukist um 50%. En þó svo að þú eigir erfitt með að draga andann nægilega djúpt, fá börnin nægt súrefni.Þú hefur örugglega þörf fyrir mörg hvíldarhlé yfir daginn – taktu þau og njóttu! En á milli hvíldanna er gott að þú haldir þér í formi. Það er langt í fæðinguna ennþá. Hvíldu þig eins og þú þarft en reyndu að lifa eðlilegu lífi þess á milli, jafnvel þó að það sé líkamlega erfitt núna. Þú ert vafalaust oft spurð að því hvort þú farir ekki að fæða – a.m.k. af þeim sem vita ekki að þú gengur með tvíbura. Þegar þú segir þeim gleðitíðindin munu margir byrja að segja þér frá öllum tvíburaforeldrum sem þeir þekkja – oft kryddað með hræðslusögum. Stoppaðu fólk af ef það verður of neikvætt. Ákveddu að þú munir einungis hlusta á jákvæðar sögur – og að þú sjálf munir einungis hugsa jákvætt. Neikvæðnin er hvorki til gagns fyrir þig né börnin þín.

Tvíburarnir
Börnin eru nú um 28 sm frá höfði niður á rass, 37 sm niður á hæl og vega um 1500 g hvort. Höfuð þeirra eru um 7,8 sm í þvermál. Þau eru nú orðin svo stór að þau eiga erfitt með að hreyfa sig án þess að ýta við hvort öðru. Bumban þín getur fengið hina undarlegustu lögun og þegar þú liggur þá getur þú oft séð hvernig þau liggja í sitt hvorri hliðinni á þér. Börnin hafa nú þrjú forgangsverkefni: þau eiga að vaxa, auka vöðvastyrkinn og gera öndunaræfingar.