29 vikur.

30. vika = vika 29+0- 6 dagar

Þú
Þú stækkar enn og hefur nú þyngst um 11-14 kíló, kannski meira, kannski minna. Sumar tvíburamæður fæða tvö stór börn þrátt fyrir að hafa einungis þyngst um 7 kíló á meðgöngunni. Aðrar þyngjast um 25 kíló og fæða tvö lítil börn. Þyngdaraukning þín er ekki endilega í takt við þyngd barnanna, heldur er mesta þyngdaraukningin í vökva og fitu. Það er mjög mikilvægt að þú farir ekki í megrun á meðgöngu. Liðbönd og sinar verða teygjanlegri en áður til að undirbúa líkamann fyrir fæðinguna.

Tvíburarnir
Börnin eru nú um 27 sm frá höfði niður á rass, 36 sm niður á hæl og vega um 1300-1400 grömm hvort. Tvíburar vaxa eins og einburar fram að þessari viku en héðan í frá vaxa þau aðeins minna en einburar. Börnin geta nú æft sig í að fókusa. Augnabrúnir og augnhár eru nú fullþroskuð. Fósturhár sem hafa þakið tvíburana, byrja nú að detta af. Tvíburarnir sjúga oft á sér þumlana.