26 vikur

27. vika = vika 26+0- 6 dagar

Þú
Þú hefur nú líklega þyngst um 10-13 kíló og þyngist hratt fram að 36. viku en lítið eftir það. Brjóstin hafa stækkað um eitt skálarnúmer. Passaðu bakið á þér því þegar bumban stækkar svona mikið, breytist þyngdarpunktur þinn þannig að þú átt á hættu að fetta þig of mikið og það er vont. Bumban getur nú þvælst fyrir í daglegum störfum.

Tvíburarnir
Börnin vaxa líka hratt núna og eru um 24 sm frá höfði niður á rass, 32 sm niður á hæl og vega um 900-1000 grömm hvort. Höfuð þeirra eru um 6,5 sm í þvermál. Tvíburarnir geta nú farið að greina ljós og skugga. Bragðlaukar þeirra eru að verða þroskaðir og þeir myndu finna mun ef legvatnið myndi skipta um bragð. Lungun sem byrjuðu að þroskast í 6. viku, geta nú fljótlega upptekið súrefni og útskilið koldíoxíð úr blóðinu. Ef börnin myndu fæðast í dag, myndu þau þó enn þurfa hjálp við öndun.