24 vikur

25.vika = vika 24+0- 6 dagar

Þú
Líkami þinn og hormónar undirbúa sig nú fyrir fæðinguna. Hjá sumum konum lekur broddmjólk úr brjóstunum seinni hluta meðgöngunnar en aðrar geta ekki kreist einn dropa úr brjóstunum. Hvorutveggja er eðlilegt og hefur ekkert forspárgildi um hæfni þína til að gefa brjóst. Helst lekur úr brjóstunum þegar þú sérð aðra konu gefa brjóst, heyrir barn gráta eða ert kynferðislega örvuð.Mál frá lífbeini upp á legbotn (legbotnshæð) er um 28-30 sm þó svo að þú sért aðeins 24 vikur gengin. Ef þú gengir með eitt barn, hefði þessi legbotnshæð gefið til kynna að þú værir komin 30 vikur á leið. Legið þrýstir nú á öll kviðar- og brjóstholslíffæri. Þörmunum er ýtt út til hliðanna, maganum er ýtt upp og lungunum er þrýst saman. Þú verður fljótt södd þegar þú borðar vegna þess að maginn er undir þrýstingi en þú verður svöng fljótt aftur. Líkami þinn er undir álagi, þú andar ört og t.d. þegar þú talar í símann virkar þú móð. En þú ert einnig að öllum líkindum að rifna úr stolti yfir því að á þessari stundu skuli tvö börn vera að vaxa og dafna í þínum eigin líkama.

Tvíburarnir
Börnin eru nú um 22 sm frá höfði niður á rass, um 30 sm niður á hæl og vega um 700-750 grömm hvort. Beinin eru að verða harðari og þegar börnin hreyfa sig bungar maginn á þér út. Börnin eru „aktíf“ í lengri tíma og þér finnst þú finna spörk út um allt – alltaf.

———————————————– ooo ———————————————–

Þetta er mjög svipað hjá mér. Við fórum í mæðraskoðun á miðvikudaginn 19 júlí, þar tók á móti okkur indælis ljósmóðir. Kom allt mjög vel út, blóðþrýstingurinn er rosalega flottur og engin eggjahvíta í þvaginu og bara allt mjög gott. Hún mældi legbotnshæðina og hann var 28 cm sem er alveg eftir stuðli svo ég get ekkert kvartað. Hún gaf sér mjög góðan tíma til að hlusta á hjartsláttinn og voru tvíburarnir ekki sáttir við það, spörkuðu og spörkuðu i mónitórinn, sem var léttir á vissan hátt því þau voru búin að vera svo róleg í sumarbústaðnum að ég var farin að sakna þeirra. Það var einhver mismunur á hjartslættinum sem svo lagaðist og hún setti ekkert út á það. Hún benti mér á það á mjög nettan hátt að ég skildi passa mig á þyngdinni því ef ég myndi halda áfram að þyngjast svona þá yrði ég kannski aðeins of þung í lok meðgöngu. Svo sendi hún mig í blóðprufu til að athuga hvort ég hafi ekki nóg af járni og blóði. Matta fékk að fara með okkur og fannst henni þetta svakalega spennandi. Hún var samt eiginleg mest spæld yfir því að það myndi engin eftir henni þarna á spítalanum en hún lá þarna inni í eitthverja 2 daga fyrir nokkrum árum síðan. Það var bara sætt. �