Hálfnuð og kannski meira en það.

21. vika = vika 20+0- 6 dagar

Þú
Legið nær nú upp fyrir nafla og lengdin milli lífbeins og hæð legbotns er um 23-24 sm. Kviðurinn stækkar dag frá degi vegna hinna hratt vaxandi tvíbura og það getur valdið kláða í húðina á maganum. Nábítur og brjóstsviði er eðlilegur og margar byrja að hrjóta vegna stíflaðs nefs af völdum bólgu í slímhúð. Þetta er m.a. vegna hormónabreytinga á meðgöngunni. Þumalfingursregla segir að eftir hálfnaða meðgöngu hafi konan fengið helming þyngdaraukningarinnar á meðgöngunni. Kílóin koma þó oft í slumpum.
Mundu að hvíla þig vel eftir vinnu, leggstu í sófann með hærra undir fótunum og gerðu gjarnan fótaæfingar: spenntu kálfana með því að spyrna í hælana og teygja ristarnar til skiptis. Fáðu þér svo stuttan síðdegislúr.Mikilvægt er að fá nægt járn og mæla heilbrigðisyfirvöld með 50-70mg af járni daglega, helst úr fæðu, það sem eftir er meðgöngunnar. Járnrík fæða er t.d. baunir, spínat, steinselja, sveskjur, rúsínur, fíkjur og kjöt. Mjólk, kaffi og te hindra hins vegar upptöku járns í líkamanum. Ef þú tekur járntöflur skaltu vara þig á að skola þeim ekki niður með þessum drykkjum, heldur frekar vatni eða c-vítamínríkum ávaxtasafa sem eykur upptöku járns í líkamanum.

Tvíburarnir
Fóstrin eru nú u.þ.b. 18 sm frá höfði niður á rass og u.þ.b. 22 sm niður á hæl og vega 440-460 grömm hvort. Þau hafa fengið pínulítil augnhár og augabrúnir og heyrnin er orðin svo þroskuð að þau geta þekkt röddina þína.

Legvatn umlykur fóstrin en það er ekki sama vatnið alla meðgönguna. Þegar fóstrin drekka legvatn, er það frásogað úr þörmunum í blóð þeirra. Blóðið er síað í nýrum fóstranna sem þau pissa svo út í legvatnið aftur. Úrgangsefnin eru aftur á móti flutt úr blóði barnanna í fylgjur þeirra, yfir í þína blóðrás og þú sérð um að útskila þeim. Þess vegna er legvatnið alltaf hreint og því ekki ógeðfellt að börnin drekka legvatnið sem þau hafa pissað áður.

Ef annað eða bæði fóstrin eru stelpur, hafa þær nú þegar um 6 milljónir eggja í eggjastokkum sínum. Þegar stelpan/stelpurnar fæðast, hefur fjöldi eggjanna minnkað í um 1 milljón og á frjósemistíma ævinnar þroskast 3-400 þeirra þannig að þau geti frjóvgast. En hver veit, kannski eru það einmitt eitt eða fleiri þessara eggja sem einhvern tímann losna fleiri saman, eða skipta sér eftir frjóvgun svo dóttir þín fær líka að upplifa að vænta og fæða tvíbura.

Þetta lofar allt góðu.