Gin og klaufaveiki

Ég hélt að Þórunn Elísa væri komin með hlaupabóluna því hún er búin að vera að ganga hér á meðal dagmömmubarnanna. Þannig er það að Þórunn Elísa og önnur stelpa sem ég er að passa voru komnar með fullt að blöðrum eða litlum bólum á bleijusvæðinu, niður fótleggina niður undir iljar og svo á hendurnar og í lófunum. Ég hélt að þetta væri bara hlaupabóla en fannst samt skrítið að það kom ekkert á búkinn né í andlitið.  Mamma stelpunar sem ég er að passa hafði svo samband við mig áðan og sagði mér að hún hefði farið með hana til læknis og hann hefði sagt að þetta væri svokölluð Gin og Klaufaveiki. Þetta er ekkert hættulegt ekki eins og sú sem dýrin fá. Ég fann á netinu útskýringu frá lækni á doktor.is

Það sem gjarnan er kallað „gin og klaufaveiki“ í daglegu tali er í raun það sem heitir Handa-, fóta- og munnsjúkdómur (Hand, foot and mouth disease) og er ekki sami sjúkdómurinn og sú gin- og klaufaveiki sem leggst á bústofn.

Handa-, fóta- og munnsjúkdómur er algengur hjá ungum börnum, en allir aldurshópar geta sýkst. Sjúkdómurinn er orsakaður af veirum sem kallast coxsackie veirur og berast þær bæði með úða og snertismiti. Sá tími sem líður frá því að smit verður og þar til einkenni koma fram eru 2–3 dagar. Einkennin eru litlar blöðrur sem eru mest áberandi á lófum, iljum og í munni og koki. Þessar blöðrur springa svo og myndast þá smá sár sem gróa á 2–4 vikum. Einnig getur fylgt vægur hiti og slappleiki. Sárin í munni og hálsi valda hvað mestum óþægindum og því getur verið óæþægilegt fyrir sjúklinginn að borða.

Sjúkdómurinn er í flestum tilfellum mildur og ekki þörf á neinni sérstakri meðferð, þó getur verið gott að nota parasetamól til að minnka óþægindi í munni og lækka hita. Rétt getur verið að láta börn ekki á leikskóla fyrstu dagana vegna smithættu, en erfitt er þó að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómsins.

Annars er allt gott að frétta hér á bæ.