Síðan síðast…

Það hefur margt gerst síðan ég skrifaði síðast og ætla ég að reyna að muna eitthvað af því og skrifa það hérna niður. Það hefur verið frekar lítið um sundæfingar eftir páskana en það var ekkert sund á föstudaginn langa, svo voru stelpurnar svo kvefaðar að við slepptum tveim tímum eftir páska, mættum svo í einn tíma á þriðjudegi en á föstudeginum féll niður tími því það kúkaði einhver í laugina.
Á þriðjudaginn síðasta mættum við í sund en það var engin tími því laugin var svo köld en við fórum í heita pottinn og pínku stund í laugina þegar hún var farin að hitna.
Ég ætla því að vona að það verði tími í dag svo stelpurnar geti æft dýfingarnar sínar.

Ég er að reyna að minnka brjóstagjöfina niður í bara eina gjöf á dag því það er búið að vera svo mikið vesen. Ég er alltaf að fá stíflur með tilheyrandi skemmtilegheitum eins og hita og verk í brjóstin. Um daginn fékk ég stíflu sem olli því að ég fékk hita og rosa verk í brjóstið, svo þegar ég var að reyna mjólka stífluna úr mér kom bara grænleitt jukk svona eins og gröftur eða hor (ekki fyrir viðkvæma).  Frekar ógeðslegt. Með því að kreista þetta úr í nokkur skipti tókst mér nú að losna við þetta en ég ætla ekki að taka sénsinn á því að fá svona aftur svo nú er ég bara að þurrka mig upp hægt og rólega.
Þær eru ekkert ósáttar við pelann en það er bara ég sem er að halda í þetta, finnst ég vera svo vond mamma að hætta alveg með þær á brjósti. En ætli maður verði ekki að hugsa svolítið um sjálfan sig líka.

Núna á miðvikudaginn 9 apríl fórum við mæðgur á Selfoss, byrjuðum á því að kíkja í leikskólann Árbæ sem ég var að vinna á og stoppuðum þar í dágóða stund. Krökkunum fundust Þórunn og Freydís alveg æðislegar og voru alltaf að segja að þær væru alveg eins og fannst það svolítið skrítið.
Eftir heimsóknina á leikskólann fórum við til Jóhönnu og Sóldísar Óskar. Það var svo gaman að hitta þær og sjá hvað Sóldís er orðin stór. Sóldís Ósk lá inn á vökudeild með stelpunum og komumst við að því þar að við erum frænkur. Ég held að hálfsystir ömmu Sigríðar sé amma Jóhönnu, er ekki vel að mér í ættfræðinni.
Eftir heimsóknina kíktum við aðeins í Suðurengið en fórum mjög fljótlega til Rúnu Einars og Rutar á Kotströnd. Það var heldur betur kominn tími til. Bæði það að við vorum aldrei búnar að sjá hana Rut með berum augum og líka að mig virkilega vantaði orðið augabrúnir. Þar sem að stelpurnar og Rut eiga alveg eins kjóla þá var smellt af nokkrum myndum.

Í gær, fimmtudaginn 10. apríl, fórum við mæðgur alla leiðina til Keflavíkur í klippingu til Flóru frænku. Það gékk áfallalaust fyrir sig en Freydís og Þórunn hreyfðu sig mun meira í þetta skipið en það síðasta. Þegar við vorum allar orðnar nýklipptar og fínar héldum við áfram til Sandgerðis í heimsókn til Ingu og Gunnars Hólm. Það var rosalega gaman. Gunnar var reyndar sofandi mest allan tímann. Hann er svo duglegur að sofa úti í vagninum sínum. Stelpurnar fóru reyndar út í vagn og lögðu sig í smá stund á meðan mamman borðaði köku inni sem Inga var nýbúin að baka. Namminamm.

Á eftir erum við að fara í ungbarnasund. Í tímanum í dag eigum við að prófa að setja stelpurnar í kaf án þess að blása framan í þær. Það verður gaman að sjá hvernig það tekst. Ég man ekki eftir fleirru í bili svo ef ég hef gleymt einhverju endilega látið mig vita.

Ég henti svo inn nokkrum myndum, til dæmis af dömunum nýklipptum.

4 replies on “Síðan síðast…”

  1. Þær eru alveg æðislegar svona nýklipptar ,þær eru alltaf jafn yndislegar.Þið verðið að passa þær vel í sundinu,þær geta orðið hræddar ef þeim svelgist á.Sjáumst í vikunni BlessEllý amma (mamma,tengdó)

  2. dudduruuu! nú er frænka montin – hún þekkti þær í sundur þó að hárið væri orðið eins… spurning með að setja inn húfu myndir og ath hvort þá sé hægt að þekkja þær í sundur ! (hehe)
    Gangi ykkur vel í sundinu (Brynja mín ég get nú ekki séð að þú sért vond mamma þó þú hættir með þær á brjósti núna, mesta furða hvað þú hefur þolað þetta lengi miðað við þessar stíflur og vesen)

  3. Þú ert alls ekki vond mamma, elsku Brynja mín! Hjá sumum gengur brjóstagjöfin eins og í sögu og hjá öðrum ekki. Þannig er það bara, því miður. Ein vinkona mín, sem fékk frekar slæma stíflu, sagði að þetta stífluvesen væri 100 sinnum verra en fæðingin nokkur tíman. Mér finnst það segja ansi mikið. Síðan skiptir það alltaf mestu máli að mömmunni líður vel – þá líður börnum vel. Þau eru svo næm þessar elskur 🙂
    Kv. Jóhanna

  4. Gott að frétta,Hrafnhildur stefnir í að verða mest dekruð ( eins og stefnt var að ) Biðjum að heilsa.

Comments are closed.